Þyrla þýska herskipsins Berlin á bakvakt

  • Berlin_13042011

Miðvikudagur 13. apríl 2011

Sea King þyrla þýska herskipsins Berlin verður bakvakt fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar dagana 14.-18. apríl eða þá daga sem skipið er í kurteisisheimsókn í Reykjavík, ásamt þýsku freigátunum Brandenburg og Rheinland-Pfalz.. Verið er að klára skoðun á TF-LÍF og var því þýska þyrlan fengin til að vera til aðstoðar TF-GNÁ, ef kemur að útkalli og þörf er á að fljúga út fyrir 20 sjómílurnar. 

Þýska herskipið Berlín er meðal stærstu skipa þýska flotans, 174 metrar að lengd og útbúið færanlegri sjúkra- og bráðadeild (Marine Emergency Rescue Centre (MERC)) sem hægt er að flytja á dekk skipsins eða í land. Með skipunum þremur koma samtals 687 manns. Til samanburðar má nefna að lengd íslensku varðskipanna Ægis og Týs er mest 70 metrar. Þór, sem væntanlegur er til landsins í haust er 94 metrar.

Berlin_Tunis_flottamenn
Flóttamenn hvílast um borð í Berlín

Meðal nýlegra verkefna þýsku herskipanna má nefna flutning 412 egypskra flóttamanna í mars, frá Túnis og til síns heima í Egyptalandi, einnig hefur  Rheinland-Pfalz  verið við gæslu og eftirlit á Aden flóa sem er á milli Sómalíu og Jemen. Skipin koma til Íslands frá Skotlandi en meðan á dvölinni stendur verða skipin staðsett við Skarfabakka og Sundabakka.

Við komuna til Reykjavíkur í fyrramálið eru fyrirhugaðar æfingar með þyrlu Landhelgisgæslunnar og að þeim loknum mun Sea King þyrla Berlínar fylgja TF-GNÁ í flugskýli Landhelgisgæslunnar þar sem hún mun hafa aðstöðu meðan á heimsókninni stendur.

Berlin_13042011
Berlín

Almenningi er boðið að skoða skipin á laugardag og sunnudag kl. 13:00-16:00  þar sem þau verða staðsett við Skarfabakka og Sundabakka. Einnig eru fyrirhugaðar eru kurteisisheimsóknir áhafnar skipanna til ýmissa opinberra aðila.