Bátur hætt kominn norður af Ströndum

Þriðjudagur 19. apríl 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 00:28 í nótt, á rás 16, aðstoðarbeiðni frá fiskibátnum Kópanesi sem var vélarvana, með tvo menn um borð norður af Ströndum. Var báturinn um  6-7 sml. frá landi en nokkuð hvasst var á staðnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu. Einnig var haft samband við nærstadda báta og þeir beðnir um að stefna á staðinn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA fór í loftið kl. 01:26 og var komin að bátnum kl. 02:28. Ágætt veður var á staðnum og allt í lagi um borð.  Ákveðið var að bíða eftir aðstoð báta sem voru á leið á staðinn, hélt þyrlan til Gjögurs og beið átekta.

Um kl. 05:10 kom fiskibáturinn Unnar að Kópanesi og kl. 05:36 Húnabjörg, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem tók bátinn í tog. Var þá Kópanes í aðeins tveggja sjómílna fjarlægð frá Boðanum en um það leiti var vindátt að snúast til suðvesturs og  bátinn fór að reka frá.

Óhapp varð í einum bátanna sem var á leiðinni til aðstoðar. Slasaðist skipverji þegar báturinn fékk á sig ólag. Manninum var ekið til Gjögurs, þar sem þyrlan beið, og flutti hann á heilsugæslustöðina á Hólmavík.

Kópanes er 23 tonna bátur og um 14 metrar á lengd.