Rússar og Spánverjar við veiðar

  • Sif_eftirlitsbunaður

Föstudagur 29. apríl 2011

Við eftirlitsflug Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar í dag var komið að sex rússneskum og einum spænskum togara að veiðum á Reykjaneshrygg á úthafskarfaveiðisvæði en samkvæmt reglum Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar-NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission,  mega úthafskarfaveiðar ekki hefjast fyrr en 10 maí.

Með greiningarbúnaði flugvélar Landhelgisgæslunnar sást greinilega að togararnir voru allir með veiðarfæri í sjó. Eitt skipanna var auk þess með slökkt á AIS búnaði (automatic identification system) sem er búnaður sem hægt er að nema sendingar frá í eftirlitsflugvélum sem og öðrum skipum, sem eru innan sjónlínu frá viðkomandi skipi. 

Á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins segir að á fundi nefndarinnar í mars sl. náðist samkomulag um veiðar úthafskarfa á Reykjaneshrygg milli Íslands, Grænlands, Færeyja,  Evrópusambandsins og Noregs en fulltrúar Rússlands mættu ekki til fundarins. Viðræður hafi staðið yfir árum saman en samkomulagið sem gert var gildir út árið 2014.

Málið verður kannað nánar.

Fiskveftirlit