Eldur kom upp í fiskibát

  • Baldur_2074.__7._agust_2007

Fimmtudagur 5. maí 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 12:42 tilkynning um eld um borð í fiskibátnum Ása RE-52 sem staddur var 10 sml. NV af Gróttu með einn mann um borð. Mikill reykur var um borð en skipverjinn vann að því að slökkva eldinn. Samstundis voru nærstaddir bátar kallaðir til aðstoðar ásamt björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.

Baldur, sjómælingaskip Landhelgisgæslunnar var komið að bátnum tólf mínútum síðar eða kl. 12:54 ásamt fiskibátnum Bóta sem var að veiðum á svæðinu. Skipverjar af Baldri fóru um borð í bátinn og aðstoðuðu við slökkvistörf.  Var þyrla Landhelgisgæslunnar afturkölluð þegar ljós var að ekki yrði þörf á henni en Halla Jónsdóttir, björgunarbátur björgunarsveitarinnar Ársæls mun taka bátinn í tog og draga hann til hafnar.

Asi_eldurumbord
Ási RE 52 er 4 tonna bátur og 7,4 metrar að lengd