Sjófarendur eru hvattir til að hlusta ætíð á rás 16

Þriðjudagur 10. maí 2011

Þegar TF-SIF var í eftirlits- og gæsluflugi í gær voru rúmlega sexhundruð skip og bátar í eftirliti. Enn var veitt á öllum strandveiðisvæðum. Frá og með deginum í dag voru veiðar hinsvegar bannaðar á svæði A sem er svæðið frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps. Sjá þéttar merkingar á kortinu sem kemur úr eftirlitsbúnaði TF-SIF. Merkingarnar standa fyrir skip og báta á sjó.

Landhelgisgæslunni berast reglulega aðstoðarbeiðnir frá fiskibátum sem lenda í vandræðum. Í flestum tilfellum leysast þó málin fljótt og vel. Í gær voru tvö atvik skráð í dagbók; beiðni um aðstoð vegna leka sem kom að fiskibát, fékk hann fylgd frá nærstöddum bát til hafnar og hins vegar var bátur vélarvana 11 sml NNV af Garðskaga. Haft var samband við nærstaddan bát sem tók hann í tog til hafnar.

Er brýnt fyrir sjófarendum að fara ekki á sjó nema búnaður sé í lagi og hlusta á rás 16, sem er neyðarbylgja fyrir skip og báta og öllum sjófarendum ber skylda til að hlusta á.

09052011_Sif_flug2
Umferð út af Vestfjörðum

09052011_Sif_flug
Umferð á SV horninu