Skúta óskaði eftir aðstoð

Miðvikudagur 18. maí 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 22:13 í gærkvöldi aðstoðarbeiðni frá sex metra seglskútu með brotið stýri undan Hvassahrauni, rétt utan við Straumsvík. Einn maður var um borð og sagði hann enga hættu á ferðum en óskaði eftir aðstoð við að komast í land.

Björgunarbáturinn Fiskaklettur í Hafnarfirði var kallaður út og sótti hann  skútuna sem var komin nokkuð nálægt landi, eða um 6-700 m þegar aðstoð barst. Nokkur öldugangur var á svæðinu. Fiskaklettur dró skútuna til hafnar í Hafnarfirði og tók aðgerðin um klukkustund.