Alþjóðlegur dagur sjómælinga
Í dag 21. júní, á sumarsólstöðum, er dagur sjómælinga. Alþjóðasjómælingastofnunin, sem stofnuð var þennan dag árið 1921, og aðildarríkin 80 nota daginn til að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kortlagning heimshafanna og útgáfa sjókorta er. Í ár er þema dagsins mannauður og fagleg sérfræðiþekking.
Sjómælinga- og sjókortagerðarmenn eru fámenn stétt á heimsvísu og hér á landi eru þeir færri en fingur beggja handa. Út um allan heim sigla skip sem þurfa sjókort til að komast milli hafna. Sjókortagerð er því lykilþáttur í hverju ríki fyrir sig og vegur þungt í milliríkjasamskiptum á mörgum sviðum.
Aðildarríki Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (International Hydrographic Organization – IHO) eru nú 80.
Skipulegar sjómælingar hófust undir lok 18. aldar. Það eru því aðeins 200-300 ár síðan farið var að dýptarmæla og kortleggja hafið á kerfisbundinn hátt. Nokkrar fyrstu sjómælingastofnanirnar voru stofnsettar á þessum tíma s.s. í Danmörku (1784) og Bretlandi (1795). Samstarf milli ríkja á sviði sjómælinga varð fyrst með alþjóðlegri ráðstefnu um siglingamál árið 1899. Á ráðstefnu árið 1919 var ákveðið að koma á formlegu samstarfi. Þremur árum síðar eða árið 1921 var Alþjóðasjómælingaskrifstofunni (International Hydrographic Bureau - IHB) komið á fót í Mónakó með aðild 19 ríkja. Ísland varð aðili árið 1957.
Í sáttmála um Alþjóðasjómælingastofnunina, sem tók gildi árið 1970, er kveðið á um að aðildarríki vilji leggja sig eftir samstarfi um sjómælingar á fjölþjóðlegum grunni, í þeim tilgangi að auðvelda siglingar og gera þær öruggari með því að bæta sjókort og tilheyrandi sjóferðagögn á heimsvísu. Orðið sjómælingar (e. hydrography) er notað yfir kerfisbundnar dýptarmælingar í þeim tilgangi að kortleggja hafsbotninn. Frá siglingafræðilegum sjónarhóli má segja að sjómælingar séu gerðar til að tryggja örugga siglingu með því að staðsetja boða, grunn og sker.
Starfsmenn sjómælingasviðs Landhelgisgæslu Íslands eru um þessar mundir átta, mælingamenn eru tveir og kortagerðarmenn eru sex.