Skemmtibátur strandar við Lundey
Laugardagur 2. júlí 2011
Landhelgisgæslunni barst kl. 11:09 beiðni um aðstoð við farþegabát með átta manns um borð, þar af sex farþega, sem hafði strandað við Lundey. Ekki var talin hætta á ferðum en báturinn hallaði nokkuð á skerinu. Sjóbjörgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru samstundis kallaðar út auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu. Björgunarbátur var sjósettur kl. 11:34 en fimm mínútum síðar var fólkinu bjargað um borð í björgunarbát Slysavarnafélagsins-Landsbjargar og síðan flutt til Reykjavíkur. Fólkinu heilsaðist ágætlega miðað við aðstæður.
Björgunarsveitir frá Kópavogi, Reykjavík og Kjalarnesi komu á vettvang á þremur harðbotna björgunarbátum og einu björgunarskipi Slysavarnafélagsins-Landsbjargar.
Farþegabáturinn er enn fastur á strandstað í Lundey og hallar talsvert. Gott veður er á staðnum en áætlað er að draga bátinn af skerinu þegar flæðir að um kvöldmatarleytið.