Þyrlur kallaðar út vegna bílslyss í Húnavatnssýslu

Mánudagur 4. júlí 2011

Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út um kl. 12:30 í dag eftir að alvarlegt þriggja bifreiða bílslys varð við bæinn Miðhóp í Vestur Húnavatnssýslu. Í bifreiðunum voru samtals ellefu manns og þar af tveir alvarlega slasaðir.  TF-GNÁ fór í loftið kl. 12:39 og flaug beint á slysstað þar sem lent var á túni rétt vestan við slysstaðinn.

Fimm sjúklingar voru ferjaðir um borð í þyrluna sem beið um stund eftir lendingu TF-LÍF-ar sem kom með neyðarblóð fyrir hina slösuðu. Fór TF-GNÁ að nýju í loftið kl. 14:08 og lenti við Landspítalann í Fossvogi kl.  14:51. Fjórir sjúklingar voru síðan fluttir um borð í TF-LÍF sem fór í loftið frá slysstað kl. 14:32 og lenti við Landspítalann kl. 15:16. Tveir voru fluttir með sjúkrabíl á sjúkrahús.