Sprengja frá seinni heimstyrjöldinni fannst á Sandskeiði

Mánudagur 11. júlí 2011

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar barst í morgun tilkynning frá lögreglunni um að sprengjuvörpusprengja hefði fundist í Bláfjöllum. Um var að ræða 60 millimetra „mortar“ sprengju frá stríðsárunum og var hún flutt til eyðingar. Var hún ekki með sprengibúnaði en í henni var ennþá sprengiefni. Talið er að sprengjan hafi verið frá tímabilinu 1942-1944 en á svæðinu í kringum Sandskeið var í seinni heimstyrjöldinni æfingasvæði hermanna.  

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fær að jafnaði 50 - 60 útköll árlega vegna sprengna. Geta þær enn verið virkar og því afar hættulegar. Þær eru úr stáli og öðrum málmum sem tærast hægt. Slíkar sprengjur finnast ennþá í grennd við fyrrum æfingasvæði hermannanna, en einnig er nokkuð um að þær finnist á fjöllum.

Brýnt er fyrir fólki að ef það finnur sprengjur eða hluti sem það telur vera sprengjur, er mikilvægt að hafa samband við lögreglu, 112 eða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Einnig er gott að fá sendar myndir og staðsetningu en í dag eru margir með slíka möguleika í símum sínum.