Ráðstefna á Íslandi um mat á ógn vegna slysa í kjarnorkukafbátum

  • Arnaldur-2011-107

Mánudagur 22. ágúst 2011

Haustið 2010 var haldinn alþjóðlegur fundur í Reykjavík þar sem kynntar voru tæknilegar upplýsingar sem nota þarf til að meta áhættu vegna slysa í kjarnorkukafbátum og öðrum kjarnorkuknúnum farartækjum (t.d. skipum). Venjulega hvílir mikil leynd yfir upplýsingum af þessum toga og því er mikilvægt fyrir borgaralegar stjórnsýslustofnanir að hafa almennt viðurkennd tæknileg viðmið sem unnt er að vísa til í úttektum. Þessum fundi er nú fylgt eftir með alþjóðlegri ráðstefnu 25.-26. ágúst. Geislavarnir ríkisins sjá um framkvæmd ráðstefnunnar í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands og meðal þátttakenda eru ýmsir sérfræðingar frá Norðurlöndum og Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, IAEA.

Kjarnorkuknúin skip og kafbátar sigla víða, þar á meðal í grennd við Ísland. Slys geta orðið með ýmsum hætti og þá er misjafnt hvesu mikið af efnum sleppur til umhverfis. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að fá sem nákvæmast mat eins skjótt og auðið er, t.d. á hversu mikið magn geislavirkra efna getur losnað til umhverfis. Aðrir þættir skipta einnig máli: Hvernig það gerist, hversu hratt og á hvað formi efnin eru. Gerð kjarnakljúfa í kjarnorkuverum er vel þekkt og til eru ítarlegar upplýsingar um hvernig geislavirk efni geta losnað til umhverfis við mismunandi gerðir slysa. Þessu er öfugt farið fyrir kjarnorkuknúna kafbáta. Vegna hernaðarlegs gildis hvílir mikil leynd yfir gerð kjarnakljúfa þeirra og það torveldar mat á hugsanlegum afleiðingum slysa. Ýmsar þjóðir búa yfir nokkurri þekkingu á þessum kjarnakljúfum vegna hernaðarsamstarfs. Til slíkrar þekkingar má þó ekki vísa á opinberum vettvangi vegna trúnaðar og sú þekking er því gagnslaus við skipulagningu almenns viðbúnaðar við geislavá.

Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS, sem er samstarfsvettvangur norrænna geislavarnastofana, sjá: http://www.nks.org), hafa stutt verkefni (NKS-B MareNuc)sem miðar að því að draga fram þá þekkingu um kjarnakljúfa í kafbátum og skipum, sem vísa má til á almennum vettvangi. Markmið með þessu er að skapa samstöðu um tæknilegar upplýsingar sem unnt er að nota við skipulagningu viðbúnaðar við slysum í kjarnorkuknúnum kafbátum og skipum, upplýsingar sem hægt er að nota fyrir opnum tjöldum og án þess að gæta þurfi trúnaðar. Þetta er lykilatriði fyrir borgaralega stjórnsýslustofnun sem þarf þarf að miðla upplýsingum og ráðgjöf innan stjórnkerfis, til fyrirtækja og til almennings.

Undirbúningsfundur var haldinn í Reykjavík fyrir tæpu ári síðan, þann 4.-5. október, sjá frétt á heimasíðu Geislavarna ríkisins.  Þessu starfi lýkur með ráðstefnu sem haldin verður 25. – 26. ágúst næstkomandi.  Geislavarnir ríkisins sjá um framkvæmd ráðstefnunnar og gera það í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands.  Nánar á heimasíðu GR.

Mynd Arnaldur Halldórsson frá æfingunni Norður Víkingur þar sem unnið var að verkefni í samstarfi við Geislavarnir ríkisins. Sjá frétt á heimasíðu þeirra.