TF-SIF flaug yfir Kolbeinsey
Mánudagur 29. ágúst 2011
Þegar flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF flaug nýverið yfir Kolbeinsey kom í ljós að verulega hefur gengið á skerið og það minnkað talsvert frá heimsókn varðskipsmanna í júní 2010. Í viðtali við Árna Hjartarson jarðfræðing, í morgunútvarpi Rásar 2, kom fram að ef fer sem horfir verður Kolbeinsey, nyrsti punktur Íslands, horfin með öllu árið 2020. Verður hún þá aðeins blindsker.
Mynd tekin úr TF-SIF í ágúst 2011.
Kolbeinsey 2006. Mynd Páll Geirdal,
Kolbeinsey 1989. Mynd Guðmundur St. Valdimarsson.
Kolbeinsey sem er sem er 74 kílómetra norður af Grímsey, gegndi mikilvægu hlutverki í deilum um landhelgi og landgrunnsréttindi. Árið 1989 steypti áhöfn varðskipsins Óðins og starfsmenn Vita- og Hafnamálastofnunar þar þyrlupall en síðan hefur eyjan minnkað hratt. Berggrunnur eyjarinnar er afar gljúpur og vinnur því sjór auðveldlega á henni. Landhelgisgæslan hefur reglulega fylgst með eyjunni í gegnum árin en eyjan glataði að mestu mikilvægi sínu eftir að samið var um miðlínuna milli Íslands og Grænlands.
Sjá nánar fréttir af heimasíðu LHG frá 2010 og 2006.
Mynd tekin úr TF-SIF í ágúst 2011.