TF-SIF heldur á ný í verkefni fyrir Frontex
Þriðjudagur 30. ágúst 2011
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug í morgun til Senegal í Afríku þar sem hún mun sinna landamæragæslu fyrir Frontex, landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins. TF-SIF kom til landsins í byrjun ágúst en þá hafði hún verið við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi frá maílokum. Flugvélin hefur reynst afar vel í verkefnum þessum og mikil ánægja hefur verið með störf starfsmanna Landhelgisgæslunnar.
Fimm manna áhöfn fylgir flugvélinni en auk þess er Landhelgisgæslan með starfsmann í stjórnstöð Frontex í Madrid en þangað eru upplýsingar flugvélarinnar sendar og allar ákvarðanir varðandi eftirlitið eru teknar í samstarfi við stjórnstöðina. Starfsmaður LHG í Madrid er á sama tíma tengiliður við varðskipið Ægir sem sinnir nú eftirliti í Miðjarðarhafi.
TF-SIF á flugvellinum í Dakar 2010