TF-LÍF flaug á Mýrdalsjökul með búnað vísindamanna

Fimmtudagur 15. september 2011

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF fór í gær í flug fyrir Veðurstofuna og Raunvísindastofnun sem notað var til að flytja búnað til að mæla jarðskorpuhreyfingar í Mýrdalsjökli. Flogið var á Skóga þar sem vísindamenn biðu með búnað sem átti að flytja. Þyrlan lenti þar og var búnaðurinn tekinn um borð. Var þá flogið upp að Entu og reynt að lenda, gekk það ekki vegna öskufjúks á svæðinu og var þá ákveðið að slaka búnaðinum niður á topp Entu. Fór sigmaður þyrlunnar fyrstur niður og tók á móti búnaðinum. Gekk verkefnið vel og var að því loknu flogið til Vestmannaeyja til eldsneytistöku og þaðan til Reykjavíkur.