Nýtt skeytasendingaforrit

 

Hannað hefur verið sérstakt skeytasendingarforrit sem viðbót við sameiginlegt fjareftirlitskerfi Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar (LHG), svo kallaður NAF-reporter. Forritið er þannig úr garði gert að skipstjórnarmenn velja sér veiðisvæði og forritið þekkir hvaða skeyti eiga við um veiðar á hvaða svæði og leiðir menn áfram við gerð einstakra skeyta auk þess að samnýta upplýsingar úr rafrænni afladagbók þar sem því verður við komið. Væntingar standa til að þetta auki hagræði við gerð og skil á skeytum líkt og skylda ber til í alþjóðasamningum og auðveldi skipstjórnarmönnum þá vinnu sem í skeytasendingunum felst.

Öll móttaka skeyta frá NAF-reporter og áframsending þeirra til annarra ríkja eða svæðisbandalaga í sameiginlegri eftirlitsstöð Fiskistofu og LHG er sjálfvirk sem eykur mjög vinnuhagræði við móttöku og úrvinnslu skeytanna og minnkar villuhættur frá því sem hefur verið. Forritið er hannað af Trackwell og er hægt að nálgast hjá þeim.  

Fiskistofa og Landhelgisgæslan hvetja útgerðaraðila til þess að tryggja sér uppsetningu þessa forrits, eða annars sambærilegs sem stuðlar að sjálfvirkri rafrænni skráningu NAF skeyta í skeytagrunn fjareftirlitskerfisins, sem fyrst. Innan tíðar verður hætt að taka við og skrá upplýsingar úr áðurnefndum skeytum á s.k. hráum NAF strengjum til handvirks innsláttar.