Æfingu sprengjusérfræðinga lokið

Sunnudagur 9. október 2011

Alþjóðlegri æfingu sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge, lauk sl. fimmtudag eftir tveggja vikna æfingaferli. Landhelgisgæsla Íslands og NATO stóðu fyrir æfingunni sem fór fram á svæði Landhelgisgæslunnar við Keflavík á fyrrum varnarsvæðum utan hans,  svo sem í höfninni í Helguvík og Patterson svæðinu.

Æfingin sem haldin var í ellefta skipti er mikilvægur þáttur í þjálfun sprengjusérfræðinga en þátttakendur hennar eru oft á tíðum teymi á leið til friðargæslu. Alls tóku átta þjóðir þátt í æfingunni, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Þýskaland, Austurríki og Bandaríkin, auk sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar. Sprengjusérfræðingar frá Belgíu og Ítalíu fylgdust auk þess með framkvæmd æfingarinnar. Margir aðrir aðilar frá Landhelgisgæslunni sem og öðrum íslenskum stofnunum komu að, má þar nefna þyrludeild, köfunardeild, varðskipadeild, Ríkislögreglustjóra, Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.

NC2011_IMG_3447
Bifreið sem var notuð sem leikmunur í æfingunni. Sprengjusérfræðingar
gerðu óvirka sprengju sem var komið fyrir í henni.

NC2011_IMG_3448
Sprengjunni eytt.

NC2011_IMG_3451
Fjarstýrt vélmenni sem var notað við sprengjueyðinguna.

Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðsvegar um heiminn og aðstæður í kring hafðar eins raunverulegar og hægt er. Einnig er rannsóknarþátturinn tekinn fyrir þar sem sum lið hafa einungis þann tilgang að rannsaka vettvang og fara yfir sönnunargögn.

NC2011_IMG_3622
Sprengjusérfræðingar að störfum í Helguvík

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa tekið þátt í friðargæsluverkefnum í Líbanon og Írak þar sem sett hafa verið saman teymi sem saman standa af tveimur sprengjusérfræðingum frá Landhelgisgæslunni og bráðatækni frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Hafa þeir unnið í nánu samstarfi við sænsku stofnunina SRSA (Swedish Rescue Services Agency) og Sameinuðu þjóðirnar. Starf þeirra hefur falist í að hreinsa  sprengjur af átakasvæðum sem er þáttur í uppbyggingarstarfi því sem fer fram til að skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar. Víða er mikið starf óunnið en talið er að 90% þeirra sem látast af völdum sprengja á átakasvæðum séu börn. Mjög mikilvægt er að þjóðir sameinist í hreinsun svæðanna en slík hreinsun er eðli málsins samkvæmt hættuleg og mikilvægt að rétt sé að verki staðið.

NC2011IMG_3580
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í æfingunni sl. miðvikudag

NC2011_2011_Heimasida

NC2011_IMG_3404

NC2011_IMG_3405
Sprengjueyðing

NC2011_IMG_3385
Sprengjusérfræðingar að störfum

NC2011_IMG_3612
Leitað að "sprengju" í Helguvík