Þyrla LHG tók þátt í landsæfingu björgunarsveita

Þriðjudagur 11. október 2011

Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar,  tók um helgina þátt í landsæfingu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði. Í æfingunni var björgunarsveitum skipt í hópa sem tókust á við verkefni af ýmsum toga, þ.a.m. verkefni þar sem þyrlan var fengin til aðstoðar. Tók þyrlan þátt í verkefnum sem m.a. fólust í rústabjörgun og flutningi slasaðra eftir hópslys.

Við lendingu á Ísafirði fékk þyrlan úthlutað verkefnum og hófust þau á að þyrlan var kölluð að slysavettvangi í Óshlíð. Voru „sjúklingar“ hífðir upp í þyrluna og fluttir á Suðurtangann þar sem bifreiðar tóku við þeim og fluttu á greiningarstöð slasaðra. Var þá haldið í Hnífsdal, þar sem þyrlan lenti og voru „slasaðir“ einstaklingar fluttir úr "húsarústum" og fluttir á Suðurtanga. Að lokum var óskað eftir aðstoð þyrlunnar í verkefni á Arnarnesi þar sem „slasaðir“ voru fluttir af vettvangi „flugslyss". Þar sem ekki var óskað eftir frekari þátttöku þyrlunnar í æfingunni var haldið til Reykjavíkur.