Varðskipið Þór kemur til Vestmannaeyja á morgun

  • Thor13102011

Þriðjudagur 25. október 2011

Varðskipið Þór er nú komið inn í íslenska leitar- og björgunarsvæðið og verða Vestmannaeyjar fyrsti viðkomustaður þegar komið er til Íslands. Leggst varðskipið að bryggju í Friðarhöfn á morgun, miðvikudag kl. 14:00 og verður skipið opið til sýnis milli kl. 14:00-20:00.

Þór siglir frá Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld og verður tekið á móti varðskipinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar kl. 14:00 á fimmtudag (Þórsdag). Varðskipið verður til sýnis á Miðbakka föstudaginn 28. október kl. 13:00-17:00, laugardaginn 29. október kl. 13:00-17:00 og sunnudaginn 30. október kl. 13:00-17:00. Einnig mun Þór mun koma víða við um landið á næstu mánuðum þar sem skipið verður til sýnis fyrir alla áhugasama.

Með komu varðskipið Þórs verða kaflaskipti í öryggismálum sjómanna og vöktun íslenska hafsvæðisins, hvort sem er á sviði auðlindagæslu, fiskveiðieftirlits, löggæslu eða leitar eða björgunar. Varðskipið er sérstaklega hannað með þarfir Íslendinga og framtíðaráskoranir á Norður- Atlantshafi í huga og verður varðskipið öflugur hlekkur í keðju björgunaraðila á Norður Atlantshafi og stóreykur möguleika Landhelgisgæslunnar á hafinu. 

Viðbragðsgeta vegna björgunar stærri skipa gjörbreytist við komu varðskipsins en einnig má nefna öflugan mengunarhreinsi- slökkvi- og fjölgeislabúnað sem notaður er við leit og rannsóknir neðansjávar. Einnig er um borð öflugur eftirlitsbúnaður sem sameinast í stjórnstöð sem staðsett er í miðri brúnni. Getur skipið t.d. verið færanleg stjórnstöð í neyðaraðgerðum og tengt björgunaraðila við samhæfingarstöð almannavarna þó svo að allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri. Einnig getur skipið tekið stórtækan björgunarbúnað og fjölda manns um borð. Mengunarhreinsibúnaður skipsins er hliðstæður búnaði norska varðskipsins Harstad sem kom til Íslands sumarið 2009. Æfði þá áhöfn varðskipsins Týs notkun búnaðarins með Harstad. Má í því sambandi nefna að Harstad var notaður við hreinsun á Oslóarfirði, eftir strand Goðafoss, í febrúar síðastliðnum.

Varðskipið Þór er 93,80 m að lengd, 16 m breitt og með 120 tonna dráttargetu. Til samanburðar má nefna að varðskipin Ægir og Týr eru 71,15 metrar að lengd, 10 metra breið og með um 56 tonna dráttargetu.

Smíði varðskipsins hófst þann 16. október 2007 og var Þór afhentur í Chile þann 23. september  sl.
Kostnaður við smíði varðskipsins er innan heildaráætlunar.