Þór kemur til Reykjavíkur á morgun fimmtudag

  • THOR8

Miðvikudagur 26. október 2011

Þór, nýtt varðskip Íslendinga kemur til Reykjavíkur á morgun, fimmtudag og verður tekið á móti varðskipinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar kl. 14:00 á morgun fimmtudag. Verður varðskipið opið til sýnis til klukkan kl. 17:00 og eru allir velkomnir um borð.

Þór verður einnig til sýnis á Miðbakka föstudag, laugardag og sunnudag kl. 13:00-17:00. Varðskipið  mun koma víða við um landið á næstu mánuðum þar sem skipið verður til sýnis fyrir alla áhugasama.

Í tölvupósti sem Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar sendi starfsmönnum í dag hvetur hann starfsmenn til að fjölmenna við komu varðskipsins til Reykjavíkur og klæðast einkennisfatnaði  við þetta hátíðlega tækifæri.

Í tölvupóstinum segir Georg ennfremur að þrátt fyrir niðurskurð og niðurskurð og niðurskurð, gengishrun og olíuverð,  stór hluti starfsmanna og tækjum í verkefnum erlendis og helmingi færri þyrlur en þörf er á, sé það mikið ánægjuefni að samkvæmt könnun nýtur Landhelgisgæslan mest trausts meðal almennings og það þriðja árið í röð.  Þetta sé vísbending um að starfsfólk Landhelgisgæslunnar geri vel og eftir því sé tekið.  Þetta sé þó vandmeðfarið og afar brothætt, þetta geri í raun enn meiri kröfur til Landhelgisgæslunnar.  Þetta hljóti að vera öllum starfsmönnum mikil hvatning og þennan árangur eigi hver einasti starfsmaður.