Hátíðleg stund við komu Þórs til Reykjavíkur

  • 6

Fimmtudagur/Þórsdagur 27. október 2011

Varðskipið Þór, nýtt eftirlits- og björgunarskip Íslendinga, sigldi í fyrsta skipti inn í Reykjavíkurhöfn  í dag og var eftirvæntingarfullur mannfjöldi samankominn á Miðbakka til að fylgjast með komu hans. Þyrlur Landhelgisgæslunnar Líf og Gná fylgdu Þór inn í höfnina, ásamt björgunarskipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og dráttarbát Faxaflóahafna sem sprautaði viðhafnarúða yfir varðskipið. Einnig flaug  Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar  lágflug yfir svæðið. Varðskipinu var fagnað með  fallbyssuskotum þegar það sigldi inn í höfnina og svaraði það með því að þeyta lúðra sína.   Afar hátíðleg stemmning myndaðist í blíðviðrinu og til að fullkomna stundina lék skólahljómsveit Austurbæjar íslenska þjóðsönginn þegar Þór var við það að leggja að bryggju og starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð.

Thor_RVK_32

Gestir gengu síðan um borð í varðskipið í fylgd Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar en þeirra á meðal voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, S.Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra og Ellý Katrín Guðmundsdóttur, borgarritari. Varðskipið var opið til sýnis fyrir alla áhugasama og voru fjölmargir sem komu í skoðunarferð og veitti áhöfnin og starfsmenn Landhelgisgæslunnar þeim upplýsingar um fjölbreytta notkunarmöguleika varðskipsins.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra flutti ávarp eftir að gengið hafði verið um borð. Hann sagði ríka ástæðu til að fagna komu hins nýja varðskips Þórs til landsins.  Ráðherra sagði skipið smíðað og útbúið til að mæta auknum umsvifum á hafinu við Ísland enda ætluðu Íslendingar sér aukið hlutverk á norðurslóðum.Sjá frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins.

Steig síðan Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur í pontu og fór m.a. með ljóð sem hann orti til skipsins..

Velkominn, varðskipið Þór,
velkominn, glæstur og stór.
Augun þín úthafið skanna
og eyrun öll tíðnisvið kanna,
aflvélar miklar og margar
... mönnum og skipum til bjargar.

Áhöfn með öruggum huga
í aðstæðum hverjum mun duga,
þekkir sín grundvallargildi,
góðvilja, staðfestu, mildi.
Við biðjum, þar búum að arfi,
um blessun í lífi og starfi.

Höf. Hjálmar Jónsson

Blessaði hann þá varðskipið og færði því og áhöfn þess biblíu að gjöf frá Dómkirkjunni í Reykjavík.

Varðskipið Þór verður opið til sýnis á Miðbakka Reykjavíkurhafnar föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 13:00-17:00 og er áætlað að varðskipið muni koma víða við um landið á næstu mánuðum þar sem það verður til sýnis fyrir alla áhugasama.

Thor_RVK_30
Georg Kr. Lárusson forstjóri tekur á móti forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni

Þór er á að baki rúmlega sjö þúsund sjómílna siglingu frá Talchuano  í Chile. Skipið var afhent 23. september og hófst siglingin til Íslands 28. september. Siglt var um Panamaskurð 6. og 7. október, stoppað í fjóra sólarhringa í Boston en þar var m.a. farið í kurteisisheimsókn til bandarísku strandgæslunnar og var skipið þar til sýnis fyrir starfsmenn hennar. Var þá haldið til Halifax í Kanada þar sem dráttarbúnaður var tekinn um borð.

Koma varðskipsins er bylting í vöktun, öryggismálum,  leit og björgun innan íslenska hafsvæðisins. Á síðustu árum hefur umferð frá Noregi og Rússlandi aukist stórlega og er vissulega þörf á öflugu varðskipi til að vera til taks enda er því spáð að með opnun norðaustursiglingarleiðarinnar eigi umferð um svæðið eftir að aukast umtalsvert. Þór gegnir þar mjög mikilvægu hlutverki í samstarfi þjóða á Norður Atlantshafi.

Thor_RVK_2

Gestir bíða komu varðskipsins.

Thor_RVK_3

Thor_RVK_36
TF-LÍF sveimar yfir varðskipinu Þór

Thor_RVK_26
Starfsmenn í hátíðareinkennisbúningi stilla sér upp

Thor_RVK_12
Lögreglumenn komu til að taka á móti skipinu

Thor_RVK_5
Heiðursvörður starfsmanna Landhelgisgæslunnar

Thor_RVK_7Thor_RVK
Varðskipið Þór kemur að Miðbakka

6
Heiðursvörður áhafnar Þórs

Thor_RVK_9
Varðskipið var mikilfenglegt þegar það lagði að Miðbakka

Thor_RVK_11

Gestir speglast í gluggum brúarinnar


Thor_RVK_15
Forseti Íslands, Innanríkis- og utanríkisráðherra bíða ásamt fleirum eftir
að settur verði niður landgangur varðskipsins


Thor_RVK_19
Gengið um borð..

Thor_RVK_28
Reyndir menn spjalla

Thor_RVK_20
Starfsmenn mættir á staðinn....

Thor_RVK_23

Thor_RVK_22

Thor_RVK_21

Thor_RVK_27