Stjórnlaust flutningaskip aðstoðað við Hornafjörð

  • ALMA

Laugardagur 5. nóvember 2011 kl. 05:00

Landhelgisgæslunni barst rúmlega kl. 03:00 í nótt aðstoðarbeiðni frá Birni Lóðs, dráttarbátnum á Höfn í Hornafirði vegna flutningaskipsins ALMA sem er um 100 m langt skip, með 16 manns í áhöfn og  skráð á Kýpur,en skipið hefur að undanförnu haft viðkomu í  Vestmannaeyjum og á Hornafirði.

Var lóðsins að aðstoða flutningaskipið út fyrir Ósinn á Hornafirði um kl. 03:00 þegar uppgötvaðist að stýri skipsins virkaði ekki. Var stýrisblað farið, en skrúfa og vél skipsins  í lagi. Lóðsinn náði að taka skipið í tog og óskaði samstundis eftir allri aðstoð vegna aðgerðarinnar.

Landhelgisgæslan hafði samband við Ingibjörgu, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hornafirði og togskipið Hoffell sem staðsett var um 6 sjómílur SA af staðnum. Einnig var haft samband við höfnina á Reyðarfirði um að fá dráttarbátinn Vött, á staðinn og var Lóðsinn, dráttarbáturinn í Vestmannaeyjum settur í viðbragðsstöðu.

Um kl. 06:00 var komin dráttartaug komin milli ALMA og Hoffells. Björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Vetti, lóðsinum á Reyðarfirði var þá snúið til hafnar.  Dró Hoffell síðan flutningaskipið Austur fyrir Stokksnes vegna SV áttar á svæðinu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er á Höfn í Hornafirði og til aðstoðar ef á þarf að halda.

Mynd Sverrir Aðalsteinsson/Marine Traffic