Stýrimaður frá Landhelgisgæslunni komin um borð í flutningaskipið

Laugardagur 5. nóvember 2011 kl. 17:30

Varðskipið Ægir hefur nú verið sent af stað frá Reykjavík og verður til taks, ef þörf er á,  austur af Stokknesi. TF-LÍF hefur verið stödd á Höfn í Hornafirði frá því í nótt og flutti hún kl. 17:25 stýrimann frá Landhelgisgæslunni um borð í flutningaskipið og verður þyrlan svo til taks á Djúpavogi ef á þarf að halda. TF-GNÁ þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu í Reykjavík og áhöfn hennar á flugvelli.

Um stórt flutningaskip er að ræða, með mikinn farm og 16 manns í áhöfn. Veðuraðstæður fara versnandi og því telur Landhelgisgæslan fulla ástæðu til að vera með mikinn viðbúnað. 

Þar sem tungumálaörðugleikar hömluðu vinnu á staðnum fékk Landhelgisgæslan sér til aðstoðar túlk frá Alþjóðahúsinu sem hefur verið staðsettur í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá í morgun. Um borð í flutningaskipinu ALMA eru sem fyrr segir 16 menn, 14 frá Úkraínu og 2 frá Rússlandi.