Stöðugt fjareftirlit stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar innan hafsvæðisins skilar árangri

Miðvikudagur 7. desember 2011

Olíuskipið St. Heritage, sem skráð er á Marshall eyjum og er tæplega 40.000 tonna tankskip lónaði frá föstudegi til þriðjudags um 40 sjómílur A-af Stokksnesi. Olíuskipið er á siglingu með fullfermi frá Murmansk í Rússlandi til Shetlandseyja en vegna veðurs við eyjarnar fékk skipið fyrirmæli frá útgerðarfélagi sínu að bíða á þessu svæði eftir hagstæðari veðurskilyrðum. 

Varðstjórar Landhelgisgæslunnar komu auga á skipið í ferilvöktunarkerfum og óskuðu eftir nánari upplýsingum um siglingu þess en þar sem skipið var á alþjóðlegu hafsvæði var því ekki skylt að senda gögn varðandi siglinguna.  Var beiðninni vel tekið og fengu varðstjórar upplýsingar sem óskað var eftir.  Fékk skipið svo heimild útgerðar til að halda áfram siglingunni og er nú komið út úr íslensku efnahagslögsögunni.

STHeritage1

Sem fyrr segir var olíuskipið allan tímann statt á alþjóðlegu hafsvæði þar sem siglingar eru frjálsar, en þó innan íslensku efnahagslögsögunnar. Full ástæða var því fyrir varðstjóra Landhelgisgæslunnar að fylgjast grannt með skipinu, enda viðkvæmur farmur um borð sem myndi valda miklum skaða ef eitthvað færi úrskeiðis. Bárust reglulegar skeytasendingar sl. daga frá skipinu þar sem það upplýsti um aðstæður.

Aukning siglinga flutninga- og farþegaskipa á norðurslóðum er veruleiki sem m.a. Landhelgisgæslan mætir og fer stærð þeirra vaxandi. Varðskipið Þór er búið öflugum björgunarbúnaði sem nauðsynlegur er ef kemur til óhappa innan hafsvæðisins, m.a. mengunarhreinsibúnað og dráttarbúnað með 120 tonna togkrafti, sem sem er tvöfalt meiri togkraftur en Ægis og Týs. Með komu varðskipsins hefur orðið bylting í viðbúnaðarstigi Landhelgisgæslunnar innan íslenska hafsvæðisins.

STHeritage2

Myndir af St. Heritage fengnar af lloydslist.com