Þyrla LHG kölluð til leitar á Jökuldal
Sunnudagur 12. desember 2011
Landhelgisgæslunni barst kl. 15:25 á sunnudag beiðni frá lögreglunni á Höfn og Egilsstöðum um aðstoð þyrlu við leit að fjórum vélsleðamönnum norður af Vatnajökli sem fóru til leitar að kindum sem ekki höfðu skilað sér í haust. Höfðu þeir áætlað að hefja eftirleitina frá Egilsselsskála í Jökuldal .
Fór TF-LÍF í loftið frá Reykjavík kl. 16:20 og var flogið beint á staðinn. Ákveðið var í samráði við svæðisstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að hefja leitina í skálum á svæðinu. Vegna slæms skyggnist var erfitt fyrir þyrluna að komast inn á Fljótsdalsheiði og var því ákveðið að gera tilraun til að fljúga í hæð á staðinn og reyna að sæta lagi ef rofaði til á svæði Egilsselsskála. Þegar þyrlan kom að skálanum kl. 19:08 sást ljós við skálann en vegna mikils snjófjúks var ekki hægt að lenda og var því ákveðið að sigmaður þyrlunnar myndi síga niður til að kanna málið. Kom þá í ljós að mennirnir voru í skálanum í góðu yfirlæti. Var þeim boðið að fara með þyrlunni til byggða og þáðu þeir það. Voru þeir þá hífðir upp og var flogið með þá á Egilsstaði þar sem lent var kl. 20:13.
Mynd úr safni LHG