Kolbeinsey að hálfu hrunin - ekki lengur hægt að lenda þyrlu á eyjunni

Fimmtudagur 9. mars 2006.

Tæplega helmingur af þyrlupalli Kolbeinseyjar er hruninn og nú er ekki lengur hægt að lenda þyrlu á eyjunni. Áhöfn Synjar, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, var í venjubundnu gæsluflugi í dag og kom í ljós er flogið var yfir Kolbeinsey að tæpur helmingur af þyrlupalli eyjarinnar var horfinn.  Áhöfn varðskipsins Óðins og starfsmenn Vita- og Hafnamálastofnunar byggðu þyrlupallinn árið 1989 og hefur eyjan jafnt og þétt minnkað síðan þá.  Til að mynda er þyrlupallurinn nú hæsti punktur eyjarinnar en þegar hann var byggður voru aðrir hlutar eyjarinnar hærri.  Nú má sjá steypustyrktarjárnin stingast út úr pallinum þar sem hann brotnaði.   Syn flaug yfir Kolbeinsey fyrir um einum og hálfum mánuði síðan og var þyrlupallurinn þá í heilu lagi að sögn Tómasar Helgasonar sem var flugstjóri í eftirlitsfluginu í dag.  

Landhelgisgæslumenn hafa skoðað eyjuna bæði úr lofti og neðansjávar.  Jónas Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar Landhelgisgæslunnar er einn af þeim sem kafað hefur við eyjuna.  Hann segir að það kæmi ekki á óvart þótt eyjan hyrfi í nánustu framtíð því að undirstöður hennar eru mjög rýrar.  Þær líta næstum út eins og grannur stilkur undir blómi.

Sjá meðfylgjandi myndir en með því að bera saman myndir sem hafa verið teknar undanfarin ár má greinilega sjá hvernig eyjan er smám saman að hverfa.

Kolbey_PGeirdal
Kolbeinsey 9. mars 2006. Ljósmynd: Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild LHG.


Dagmar Sigurðardóttirlögfræðingur/upplýsingaftr.