Spilvír þyrlunnar slitnaði rétt fyrir hífingu

Atvikið hið eina sinnar tegundar í sögu flugdeildar LHG

Mánudagur 9. janúar 2012

Við æfingu TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar og varðskipsins Ægis um helgina slitnaði spilvír þyrlunnar rétt áður en hífa átti mann úr sjó. Samkvæmt verklagsreglum Landhelgisgæslunnar var æfingunni hætt og samstundis kallað til fundar með áhöfn þyrlunnar, Rannsóknarnefnd flugslysa,  flugrekstrarstjóra, yfirflugvirkja og flugöryggisfulltrúa þar sem farið var yfir atvikið. Skipherra varðskipsins fundaði einnig með áhöfninni og fór yfir málið í samvinnu við flugdeild Landhelgisgæslunnar. Rétt er að geta þess að engan sakaði við atvikið sem talið er að sé hið eina sinnar tegundar í sögu flugdeildar Landhelgisgæslunnar.

Sérfræðingar Landhelgisgæslunnar telja líklegustu skýringuna að atvikið hafi átt sér stað þegar bugt myndaðist á vírnum fyrir hífinguna en slíkt er nánast óhugsandi þegar maður er í hífingu. Báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar eru með tvö spil til hífinga, eitt aðalspil og annað til vara.  Skipt er um víra í spilum á þyrlum Landhelgisgæslunnar og allur spilbúnaður yfirfarinn með mjög reglulegu millibili samkvæmt fyrirmælum framleiðanda og gildandi öryggisstöðlum.

Áfram verður unnið með rannsókn málsins, m.a. annars í samvinnu við framleiðanda spilsins og Rannsóknarnefnd flugslysa.