Skemmtiferðaskip sigli tvö saman um lítt könnuð svæði

  • TyrMalta_5187

Mánudagur 30. janúar 2011

Siglingar skemmtiferðaskipa um Norðurslóðir hafa aukist jafnt og þétt á sl. árum og hefur verið lagt til að skemmtiferðaskip sem t.d. leggja leið sína upp með austur strönd Grænlands, um lítt eða ekki könnuð svæði, sigli tvö og tvö saman til þess að auðveldara sé að bregðast við stórslysi hliðstæðu því sem varð nýlega við eyjuna Giglio á Ítalíu þegar skemmtiferðaskipið Costa Concordia strandaði með um 4000 manns innanborðs.

Á þessum svæðum er yfirleitt enga björgunaraðstoð að fá með skömmum fyrirvara og er því mikilvægt fyrir öryggi skips og farþega að skemmtiferðaskip sigli ætíð tvö og tvö saman um svæðið. Að auki er engin aðstaða í landi til að taka við farþegum þó svo að þeir kæmust í land. Eina raunhæfa björgunartæki á þessum slóðum er annað skip sem getur tekið fjölda fólks um borð.  Björgun með þyrlu er að öllum líkindum ekki kostur, þar sem staðsetning er langt fyrir utan drægi þeirra. 

TyrMalta_5217
Varðskipið Týr við hlið Costa Concordia í höfn Valletta á Möltu.
Mynd Jón Kr. Friðgeirsson

Til að gera sér grein fyrir stærðarhlutföllum má hér sjá myndir af varðskipinu Tý við hlið Costa Concordia í höfninni í Valetta á Möltu 17. júní sl. Sést þar glöggt gríðarmikill stærðarmunur skipanna sem staðfestir nauðsyn þess að vera með öflugt varðskip sem Þór til taks innan hafsvæðisins sem getur dregið stærri skip sem sigla um svæðið.

Landhelgisgæslan er samkvæmt ákvörðun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), fyrir hönd Íslands,  ábyrg fyrir leit og björgun á svæði sem nær norður fyrir Jan Mayen í norðri, austur að 0° lengdarbaug í austri, austur og suður fyrir Færeyjar og þaðan að Hvarfi, syðst á Grænlandi og norður með austurströnd Grænlands og norður fyrir Jan Mayen eins og komið hefur fram.  Þetta er gífurlega stórt ábyrgðarsvæði á erfiðu hafsvæði.  Er það meira en tvöfalt stærra en efnahagslögsagan eða um 1,9 milljónir ferkílómetrar. Sjá kort. Þó svo að Landhelgisgæslan sé ábyrg fyrir leit og björgun á þessu svæði þarf það ekki alltaf að þýða að íslensk skip eða loftför séu kölluð til að sinna aðgerðum heldur er allra mögulegra alþjóðlegra leiða leitað til að koma skipum, bátum eða loftförum til aðstoðar sem lent hafa í óhöppum. Landhelgisgæslan og stjórnstöð hennar bera engu að síður ábyrgð á aðgerðum allt til enda.

Flest skemmtiferðaskip sem leið eiga um íslenska hafsvæðið koma til hafnar í Reykjavík en samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum komu árið 2011 samtals 68 skip til hafnar í Reykjavík með um 63.000 farþega en árið 2010 74 skip með um 70.000 farþega. Stærsta skipið var Aida með um 3.400 farþega um borð eða yfir 6.000 manns alls. Engin vandamál hafa komið upp vegna siglinga skemmtiferðaskipa við Ísland en aðgerðaáætlanir eru bæði til staðar um borð í skipunum og í landi. Stjórnendum skemmtiferðaskipa ber að fara að alþjóðlegum lögum um siglingar. Ekki hefur verið þörf á að taka upp leiðastjórnun við landið nema undan Suðvesturlandi þar sem eru í gildi reglur um aðskildar siglingaleiðir. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tekur á móti upplýsingum um siglingar skipanna, fylgist með þeim í ferilvöktunarkerfum og er þeim til aðstoðar á Norðurslóðum.

CNN_myndCostaConcord_staerd

Mynd fengin af vef CNN sem sýnir stærð Costa Concordia


SAR svaedi
Íslenska leitar og björgunarsvæðið innan rauðu línunnar.

Sjá frétt á vef Maritime Denmark