Framkvæmdir Rolls Royce við vélbúnað Þórs hafa enn ekki borið árangur

Titringur enn langt yfir viðmiðunarmörkum framleiðanda

  • Þor Vestmeyjar AS

Eins og fram hefur komið fóru í desember sl. fram titringsmælingar á vélum varðskipsins Þórs vegna ábyrgðar á vélbúnaði skipsins. Kom þá í ljós óeðlilega mikill titringur á annarri aðalvél varðskipsins. Í kjölfarið sendi Rolls Royce í Noregi sem er framleiðandi vélanna, fulltrúa sína hingað til lands til þess að kanna hver orsökin gæti verið enda er lögð mikil áhersla á að nýta ábyrgðartíma vélanna sem er 18 mánuðir.

RR_engine1
Aðalvélar Þórs eru af gerðinni  Rolls-Royce Marine Bergen B32:40 -

Fulltrúar Rolls Royce töldu líklegt að um galla í eldsneytiskerfi væri að ræða og hafin var leit að mögulegum orsökum þess og margvíslegar breytingar gerðar á eldsneytiskerfi samfara því.  Gerðar voru nýjar mælingar í kjölfarið sem leiddu í ljós að litlar sem engar breytingar höfðu orðið á titringi við þessa aðgerð. Í framhaldinu ákvað vélarframleiðandinn að stilla vélina upp á nýtt, skipta um mótorpúða og steypa undir vélina.  Nú hefur komið í ljós að sú aðgerð hefur ekki borið tilætlaðan árangur þar sem titringur er enn allnokkuð yfir þeim mörkum sem framleiðandinn sjálfur, Rolls Royce setur.  

Þessar niðurstöður eru nú til skoðunar hjá Rolls Royce en þeir munu ákveða framhaldið.  Líklegt má telja að Rolls Royce muni láta sigla skipinu til Bergen í Noregi þar sem vélarnar eru framleiddar, til frekari rannsókna og lagfæringa.  Ef af verður er þetta allnokkur framkvæmd sem mun væntanlega taka einhverjar vikur.  

Er vinna þessi alfarið á ábyrgð framleiðanda vélanna, Rolls Royce í Noregi og mun Landhelgisgæslan ekki bera neinn kostnað af framkvæmdunum enda skipið í ábyrgð.  Þess má og geta að ábyrgðartími véla og skips lengist sem nemur framkvæmdartíma vegna þessa.

ThOR_1

Það er óheppilegt að missa skipið úr rekstri.  Þó vitað hafi verið að ýmsar lagfæringar þyrfti að gera á skipinu meðan á ábyrgðartíma stendur var samt sem áður áætlað að skipið gæti nýst að mestu í þjónustu fyrir Landhelgisgæsluna og hennar störf nú í vetur.  Landhelgisgæslan hefur gert ráðstafanir til að varðskipin Ægir og Týr verði til skiptis við gæslustörf hér við land meðan á þessum framkvæmdum stendur.