Þyrlan TF-SYN skiptir sköpum varðandi björgunargetu Landhelgisgæslunnar

  • SYN

Þriðjudagur 7. febrúar 2012

TF-SYN kom til landsins sunnudagkvöldið 5. febrúar sl. en þyrlan hefur verið leigð til leitar, björgunar og eftirlitsstarfa Landhelgisgæslunnar.

Eins og fram hefur komið er þyrlan TF-LIF í stórri skoðun í Noregi og væntanleg hingað til lands í byrjun apríl.  Leitað var leiða til að brúa það bil sem þá myndast er aðeins ein þyrla er til taks.  Í framhaldi af útboði í lok desember sl. barst eitt tilboð og var því tekið enda þyrlan ásættanlegur kostur. 

Þyrlan TF-SYN sem er í eigu Norsk Helicopter er leigð til Landhelgisgæslunnar sem Limited SAR þyrla sem þýðir að hún hefur skerta björgunargetu við ákveðnar aðstæður í myrkri en hefur nánast sömu kosti og hinar tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-GNA hvað varðar flugþol, flugdrægni, stærð og afl.  Raunar er það svo að allar þyrlur hafa einhverjar takmarkanir við vissar aðstæður og gildir það um björgunarþyrlur sem aðrar þyrlur.  TF-SYN er engum takmörkum háð við flug út fyrir 20 sjómílur í dagsbirtu og við björt skilyrði að nóttu.  Þar sem nú birtir óðum að degi nýtist þyrlan betur og betur með hverjum deginum sem líður.

Með komu þyrlunnar TF-SYN er tryggt að tvær þyrlur verði í rekstri næstu vikurnar á meðan TF-LIF er í skoðun í Noregi.  Stærstan hluta ársins verða síðan þrjár þyrlur í rekstri sem eykur möguleika Landhelgisgæslunnar á að skipuleggja viðhald og skoðanir á þyrlunum þannig að sem best sé tryggt að tvær þyrlur séu til taks að jafnaði eins og nauðsynlegt er og stefnt hefur verið að.  Þyrlan TF-SYN gerir auk þess Landhelgisgæslunni kleift að nýta betur þyrlurnar TF-GNA og TF-LIF sem stuðlar að mun betra viðbragði og eykur öryggi til muna.  Þyrlan skiptir því sköpum í rekstri Landhelgisgæslunnar og fyrir alla þá sem þurfa að reiða sig á aðstoð, sjúkraflutninga eða björgun með þyrlum. 

Hér má sjá tæknilegar upplýsingar um þyrluna: 

Gerð: Tveggja hreyfla þyrla af tegundinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1.

Áhöfn: 2 flugmenn, 1 sigmaður, 1 spilmaður og 1 læknir, alls 5.
Farþegar: 18
Hreyflar: 2stk. Turbomeca Makila IA1. 1783 hestöfl hvor.
Hámarkshraði: 150 sjóm/klst. (270 km/klst).
Hagkvæmur hraði: 125 sjóm/klst. (225 km/klst).
Leitarhraði: 90 sjóm/klst. (162 km/klst).
Hámarks flugdrægi: 625 sjóm. (1125 km).
Hámarks flugþol: 5:00 klst.
Stærð: Mesta lengd á bol 16.3 metrar.
Mesta lengd á skrúfuferli 15.6 metrar.
Mesta breidd á bol 3.4 metrar.
Mesta hæð á bol 5 metrar.

TF-SYN getur tekið 2 sjúkrabörur.

Sérútbúnaður:

Afísingarbúnaður (sem gerir kleift að fljúga í ísingu).

Þriggja ása sjálfstýring

Björgunarspil

Neyðarflot sem blásast upp við nauðlendingu í sjó.