Varðstjórar sitja námskeið hjá Isavia

  • IsaviaNamskeid

Föstudagur 10. febrúar 2012

Starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar - JRCC Ísland (Joint Rescue Coordination Centre) hafa að undanförnu setið námskeið hjá ISAVIA sem heitir OACC alerting JRCC. Er þar fjallað um samskipti JRCC við flugstjórnarmiðstöðina þegar háski steðjar að í flugi.

Egill Þórðarson verkefnisstjóri NOTAM hjá Isavia hefur umsjón með námskeiðinu en þau byggir hann á fjölbreyttri reynslu sinni af leitar- og björgunaraðgerðum.  Hefur hann verið loftskeytamaður á gæsluvélinni TF-SYN, varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og björgunarmiðstöðinni MRCC Reykjavík (Maritime Rescue Coordination Centre) auk starfs síns við meðhöndlun fluggagna í flugstjórnarmiðstöð Isavia. Auk Egils kenndi Árni Guðbrandsson, flugumferðarstjóri samskipti varðstjóra flugstjórnarmiðstöðvarinnar og JRCC Ísland.
 
Um miðjan mars kennir Egill sama námskeið við björgunarmiðstöðina MRCC í Þórshöfn í Færeyjum. En sjóbjörgunarsvæði (SRR - Search and Rescue Region) stöðvarinnar er að mestu leyti innan flugbjörgunarsvæðis (SRR) Íslands.

Ný reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara tók gildi 5. október 2010. Fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar og björgunaraðgerða á leitar og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara og breyttist nafn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar þar með úr MRCC (Maritime rescue coordination centre) í JRCC Ísland (Joint rescue coordination centre). Landhelgisgæslan fer með stjórnun allra leitar- og björgunaraðgerða innan íslenskrar efnahagslögsögu og á ábyrgðarsvæði Íslands á alþjóðlegum hafsvæðum. Einnig aðstoðar Landhelgisgæslan yfirvöld á landi við leit og björgun sé þess óskað. Í kjölfar útgáfu reglugerðarinnar, 14. október 2010 var gerður samstarfssamningur við ISAVIA um samvinnu og verkaskiptingu vegna leitar og björgunar loftfara. ISAVIA sinnir viðbúnaðarþjónustu og þjálfar starfsmenn Landhelgisgæslunnar vegna flugþáttarins.

Mynd Guðni - ISAVIA