Eftirlits- og ferilsvöktunarkerfi kynnt í Mið-Ameríku

  • LHG_Frontex_SamvinnaAegirSif

Mánudagur 12. febrúar 2012

Vegna sérþekkingar á sviði samræmdra eftirlits- og ferilsvöktunarkerfa fær Landhelgisgæslan reglulega boð víða að úr heiminum þar sem óskað er eftir kennslu og fyrirlestrum varðandi  uppbyggingu, skipulag og árangur sem náðst hefur í notkun þeirra. Eru kerfin m.a. notuð í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en innan stjórnstöðvarinnar er unnið að söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga er varða m.a. öryggismál, fiskveiðieftirlit, landamæraeftirlit, leit, björgun og umhverfismál. Nýtast kerfin ekki einvörðungu hér á landi heldur eru þau mikilvægur þáttur í samvinnu ríkja varðandi öryggimál sjófarenda og öryggismál almennt á hafsvæðinu. Stöðugt er unnið að áframhaldandi þróun kerfanna sem halda utan um heildar stöðumynd og upplýsingar fyrir hafsvæðið.

Til að mynda barst Landhelgisgæslunni nýverið beiðni um fulltrúa hennar frá fiskveiðinefnd Mið-Ameríkuríkuþjóða (OSPESCA) vegna baráttu þeirra við ólöglegar fiskveiðar. Gylfi Geirsson, forstöðumaður tekur að sér verkefnið en hann var árið 2011 við hliðstæða kennslu í Zaragoza á Spáni. Útskýrir hann notkun kerfanna við eftirlit á hafinu, almenna landhelgisgæslu, fiskveiðieftirlit, landamæraeftirlit, eftirlit með hverkonar ólöglegri starfsemi, neyðarþjónustu sem og leit og björgun.  Mun Gylfi einnig fjalla um NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission) og árangur samtakanna í baráttu við ólöglegar (IUU) fiskveiðar á NA Atlantshafi, en hann er jafnframt formaður fiskveiðieftilitsnefndar samtakanna. Eru ferðir og uppihald vegna kennslu eða fyrirlestrana alfarið á kostnað þeirra sem óska eftir þjónustunni.

Mynd Ægir og Sif, GSV