Landhelgisgæslan verður vör við óvenjulegt siglingalag Brúarfoss

  • Bruarfoss

Fimmtudagur 16. febrúar 2012

Um kl. 03:00 í nótt höfðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við flutningaskipið Brúarfoss þar sem skipið var statt V-af Garðskaga, í hefðbundinni siglingaleið, í um 6 sjómílna fjarlægð frá landi. Tóku varðstjórar eftir í ferilvöktunarkerfum að skipið var komið á rek. Kom þá í ljós að skipið átti við vélavandamál að stríða, unnið var að mati á aðstæðum um borð og vélstjórar að vinna í málinu._IB_6324

Til öryggis ákvað Landhelgisgæslan að kalla strax í varðskipið Ægi sem var statt S- af Grindavík auk þess var haft samband við togarann Höfrung 3 sem staddur var á Stakksfirði, voru skipin beðin um að sigla með auknum hraða á staðinn.

Þar sem töf varð á að koma vélum skipsins í gang og skipið rak hratt að landi en 11 manns eru í áhöfn Brúarfoss,  var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í viðbragðsstöðu á Garðskaga. Einnig voru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu kallaðar út og haft var samband við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem upplýsti lögreglu á svæðinu.

Sjá pdf með feril Brúarfoss frá kl. 02:54 til kl. 05:40.

Mjög slæmt veður var á staðnum, vestan stormur og ölduhæð 7 metrar.

Öllum viðbragðsáætlunum var fylgt til hins ýtrasta um borð í Brúarfossi og vann stjórnstöð Landhelgisgæslunnar allt ferlið í nánu samstarfi við öryggisnefnd Eimskipafélags Íslands.

BruarfossÞegar Brúarfoss átti um 2 sml eftir upp að grynningum lét skipið akkeri falla sem hægði á reki. Jafnframt var Höfrungur 3 þá kominn að honum en varðskipið Ægir átti um 1 klst siglingu eftir að skipunum. Vélar Brúarfoss komust um það leiti í gang og sigldi skipið í átt frá landi til að koma sér úr hættu í fylgd Höfrungs 3. Sigldi skipið nú svo til suðurs frá Reykjanesi,  til Vestmannaeyja í fylgd varðskipsins Ægis.

Ur_k36_Gardskagi_adskildar_siglinaleidir
Sjá aðskildar siglingaleiðir - smellið á mynd til að stækka.
Kort frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar/Sjómælingar Íslands.

Árið 2008 var sett reglugerð um afmörkun siglingaleiða, svæði sem ber að forðast
og tilkynningaskyldu skipa fyrir Suðvesturlandi, sjá reglugerð. Voru reglurnar settar í kjölfar samþykktar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) til að auka öryggi sjófarenda í kjölfar sjóslysa sem urðu á svæðinu. Var Brúarfoss á þessari afmörkuðu siglingaleið og er ljóst að mun verr hefði farið ef skipið hefði verið á siglingaleið þeirri sem áður tíðkaðist. Rak Brúarfoss um 4 sjómílur að landi í nótt en sú siglingaleið sem áður var farin er í um 2,5 sjómílna fjarlægð frá ströndu.

K31_241109
Smellið á mynd til að stækka
Kort frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar/Sjómælingar Íslands.

Aðskildar siglingaleiðirnar eru fyrir skip sem sigla fyrir Reykjanes (Traffic Separation Schemes), þrjú svæði (A, B og C) sem ber að forðast (Area to be Avoided, ATBA) úti fyrir Suður-og Suðvesturlandi ásamt tillögu um tilkynningarskyldu skipa sem sigla inn á svæði A. Þessar ráðstafanir öðluðust gildi 1. júlí 2008. 

Mynd af Brúarfossi Þorgeir Baldursson