Rífa byggingu sjónvarpsstöðvar varnarliðsins

  • KEF_Sjonv1

Laugardagur 18. febrúar 2012

Innan öryggissvæðis Landhelgisgæslunnar við Keflavíkurflugvöll vinna nú verktakar að niðurrifi byggingar sem til ársins 2006 hýsti sjónvarpsstöð bandaríska varnarliðsins en byggingin er ónýt. Nú er unnið að því að rífa niður asbest og verður það urðað með viðeigandi hætti skv. kröfum Heilbrigðiseftirlitsins.

KEF_Sjonv2
Litrík saga fylgir byggingunni sem samsett er af tveimur bröggum og eflaust minnast margir útsendinga Kanasjónvarpsins sem hófust árið 1955 þegar varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli var veitt leyfi til sjónvarpsútsendinga innan herstöðvarinnar. Sendingar sjónvarpsstöðvarinnar náðust í fyrstu skammt út fyrir vallarsvæðið, en eftir að sendistyrkurinn var aukinn árið 1963 gátu flestir íbúar suðvesturhornsins náð dagskránni, sem byggðist á bandarískum skemmtiþáttum og kvikmyndum. Almenn ánægja var með útsendingarnar og í kjölfarið festu þúsundir heimila kaup á sjónvarpstækjum.

KEF_Sjonv5
Miklar deilur risu um útsendingarnar þar sem ekki var talið rétt að bandarískt sjónvarpsefni væri aðgengilegt stórum hluta þjóðarinnar, en ekki innlend dagskrá á íslensku. Deilurnar eru sagðar hafa flýtt fyrir stofnun Ríkissjónvarpsins, sem hóf útsendingar 30. september 1966. Skömmu síðar barst tilkynning frá yfirmönnum varnarliðsins um að kanasjónvarpið yrði framvegis takmarkað við Keflavíkurflugöll þar sem samningar þeirra um sýningar á ókeypis sjónvarpsefni væru háðir því að engar aðrar sjónvarpsstöðvar væru með útsendingar á svæðinu.

KEF_Sjonv4
Heimild Greinasafn mbl.is
Átök og deilur um útsendingar, 13. febrúar 2005.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1001502/