Þyrla LHG og björgunarfélagið á Höfn sækja menn á Vatnajökul

Nætursjónaukum þyrlunnar og réttum undirbúningi ferðamannanna að þakka hversu vel gekk að bjarga þeim

  • Snapshot-2-(18.3.2012-16-10)

Sunnudagur 18. mars 2012

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gærkvöldi Kl. 21:51 neyðarskeyti frá  Cospas Sarsat neyðarsendi með staðsetningu í Breiðubungu  í austanverðum Vatnajökli. Var boðunum komið áfram til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar sem hafði samband við lögregluna á Höfn. Lögreglan boðaði út hjálparsveitir björgunarfélags Landsbjargar á Höfn og óskaði eftir þyrlu Landhelgisgæslu til leitar kl. 22:50. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 23:30 og flaug beint á svæðið. Í 1000 feta hæð fór þyrlan að heyra dauf hljóð frá neyðarsendinum og var þeim boðum fylgt þar til mennirnir fundust kl. 01:17. Um var að ræða tvo erlenda ferðalanga í tjaldi á svæðinu. Voru þeir orðnir kaldir og höfðu ræst  Cospas-Sarsat neyðarsendi sem þeir höfðu meðferðis.  Voru mennirnir hífðir upp í þyrluna þar sem ekki var hægt að lenda vegna snjófoks. Þyrlan flaug með mennina til Hafnar í Hornafirði þar sem lent var kl. 01:41, tók  lögregla þar við mönnunum. Hélt þyrlan síðan aftur til Reykjavíkur kl. 02:28 og var lent í Reykjavík kl.  04:10.

Gekk björgunin afar vel fyrir sig og er það m.a. að þakka góðum undirbúningi ferðamannanna og nætursjónaukum þyrlunnar. Þeir fengu lánaðan neyðarsendi hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, skiluðu inn ferðaáætlun og létu vita af sér. Kveiktu svo á neyðarsendinum þegar veður fór versnandi. Sást staðsetning þeirra strax með nætursjónaukunum þegar komið var á staðinn. Voru mennirnir orðnir mjög kaldir þegar þyrlan hífði þá þá um borð.

Áhöfn TF-GNA tók myndir í gegnum nætursjónauka sem sýna þegar þyrlan kemur að ferðamönnunum. Sigmaður seig niður til þeirra og voru þeir síðan hífðir um borð.

Frétt á ruv.is

Myndskeið á visir.is

GNA_Vatnajokull18032012