Fjölþjóðleg björgunaræfing fór fram í dag

  • _MG_0566

Þriðjudagur 10. apríl 2012

Landhelgisgæslan tók í dag þátt í fjölþjóðlegu björgunaræfingunni Dynamic Mercy, sem til margra ára hefur farið fram með þátttöku stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar /JRCC Ísland og annarra björgunarmiðstöðva við Norður-Atlantshafið. Æfingin, sem áður kallaðist Bold Mercy, fer fram árlega en tilgangur hennar er að þjálfa borgaralega og/eða hernaðarlega stjórnendur og starfsmenn björgunarmiðstöðvanna í ýmsum aðstæðum sem upp geta komið á svæðinu. Mikilvægt er að þessir aðilar vinni vel saman og vinnubrögð þeirra séu fumlaus,  hvort sem um er að ræða samstarfsmenn innan sömu starfsstöðvar eða í öðru landi.

Í ár voru æfð viðbrögð við flugatviki þar sem lítil flugvél á leið frá Egilsstöðum til Stavangurs í Noregi með sex manna fjölskyldu um borð, lenti í vandræðum vegna ísingar og brotlenti í sjó. Aðstæðurnar kölluðu á tafarlaus viðbrögð varðstjóra í stjórnstöð LHG/JRCC-Ísland, varðstjóra í flugstjórnamiðstöð ISAVIA, sem upplýstu um neyðarástand flugvélarinnar sem og varðstjóra í sjóbjörgunarmiðstöðinni í Færeyjum (MRCC-Torshavn). 

3-Triton-AEgir-og-lettbatur-Tritons
Frá æfingu sem haldin var við Færeyjar. Mynd GSV

Auk björgunarstjórnstöðvanna tóku varðskip frá Íslandi, Færeyjum og Danmörku þátt í æfingunni auk þyrlu frá Færeyjum.  Vinnubrögð og verklag varðstjóra Landhelgisgæslunnar í æfingunni tengdust m.a. námskeiði sem nýverið var haldið á vegum ISAVIA. Jafnframt voru æfð samskipti og samhæfing milli björgunarmiðstöðvanna á Íslandi og í Færeyjum.