Togveiðiskip fékk dufl í veiðarfærin
Miðvikudagur 11. apríl 2012
Landhelgisgæslunni barst snemma í morgun tilkynning frá togveiðiskipinu Sóleyju Sigurjóns sem fengið hafði dufl í veiðarfærin um 20 sml vestur af Reykjanestá. Ákveðið var að senda sprengjusérfræðinga um borð með þyrlu Landhelgisgæslunnar en þegar komið var að skipinu reyndist ekki mögulegt að síga um borð vegna mikillar ölduhæðar. Gátu þó sprengjusérfræðingar greint frá þyrlunni að um væri að ræða þýskt tundurdufl. Var óskað eftir að togarinn héldi rakleiðis til Keflavíkur þar sem sprengjusérfræðingarnir kæmust um borð.
Tundurduflið undirbúið fyrir flutning.
Þegar skipið kom að landi var áhöfnin send frá borði, fyrir utan skipstjóra og yfirvélstjóra. Tóku síðan sprengjusérfræðingar hvellhettuna úr duflinu áður en það var flutt yfir í lóðsbátinn Auðunn sem sigldi með tundurduflið til Njarðvíkur. Var duflið síðan flutt í lögreglufylgd að afviknum stað við Stapafell þar sem því var eytt af sprengjusérfræðingum LHG. Talið er að duflið hafi innihaldið um um 300 kíló af sprengjuefni.
Hér fyrir neðan sjást myndir sem sýna þegar duflinu var eytt við Stapafell.
Myndir EOD