Tímamót í samskiptum þyrluáhafnar við björgunaraðila á vettvangi

  • NC2009_WEEK2_DOUG_ELSEY_PHOTO__104

Mánudagur 16. apríl 2012

Í dag urðu þau tímamót að varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga tengdu í fyrsta skipti samskipti þyrluáhafnar í sjúkraflugi, sem notar VHF talstöðvar og björgunaraðila á vettvangi með Tetra talstöðvar. Geta þyrluáhafnir héðan í frá talað milliliðalaust gegnum VHF, án þess að þyrlurnar sjálfar séu útbúnar Tetra.

Uppsetning á Tetra í þyrlum Landhelgisgæslunnar er afar kostnaðarsamt ferli og ljóst að með þessari lausn sparast umtalsverðir fjármunir auk þeirrar hagræðingar og öryggis sem af hlýst.  Eru þyrluáhafnir þó með Tetra handstöðvar til nota utan þyrlunnar og eftir þörfum.

Héðan í frá getur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga tengt hvaða VHF talstöð stöðvarinnar (eru samtals sextíu) milli þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunaraðila með Tetra. VHF stöðvarnar sextíu eru staðsettar á 28 stöðum umhverfis landið. Með þessu móti eru bæði kostir VHF og Tetra nýttir til fulls og eru samlegðaráhrifin mikil.