Varðskip, flugvél og þyrla LHG í grennd þegar grásleppubátur strandaði

  • Strand230412_GSV_IMG_3553-(1)

Mánudagur 23. apríl 2012

Grásleppubátur með tvo menn um borð strandaði á boða í Hofsvík við Kjalarnes eftir hádegi í dag. Á sama tíma stóð yfir sameiginlega leitaræfing á svæðinu með þátttöku stjórnstöðvar, þyrlu, flugvélar og varðskips Landhelgisgæslunnar og voru því óvenjumargar gæslueiningar til taks þegar aðstoðarbeiðnin barst stjórnstöð kl. 13:51. Varðskipið Ægir var nýfarið frá Reykjavík og hélt samstundis á staðinn. Ekki var talin bráð hætta á ferðum,  ágætt veður og áhöfnin klár í flotgöllum. 

Strand230412_GSV_IMG_3553-(5)

Harðbotna léttabátur Ægis var kominn að bátnum kl. 14:22 með dælu ef á þyrfti að halda. Fór varðskipsmaður um borð og sett var taug milli bátanna. Losnaði báturinn af skerinu kl.  14:34 og var hann dreginn frá. Skömmu síðar var vél bátsins gangsett og virtist ekkert vera að stjórnbúnaði bátsins. Enginn leki kom að bátnum og hélt hann fyrir eigin vélarafli til Reykjavíkur.

Strand230412_GSV_IMG_3553-(3)

Myndir Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður v/s Ægir