Strandveiðar hafnar að nýju

  • _MG_3255

Miðvikudagur 2. maí 2012

Mikið var um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í dag á fyrsta degi strandveiðanna en um kl. 07:00 í morgun voru um sjö hundruð skip í fjareftirliti stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga en um kl. 15:30 hafði talan farið niður í 670 skip utan hafna.  Þurfa allir bátar sem fara til strandveiða að tilkynna Landhelgisgæslunni brottför og komu til hafnar.  

TF-SIF fór í eftirlitsflug eftir hádegi í dag og var flugvélin kl. 14:07 beðin um að skyggnast um eftir bát sem hafði verið að línuveiðum við Kolbeinsey en ekki höfu borist reglubundin boð frá bátnum og ekki náðist í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir varðstjóra. Segir í flugskýrslu að komið var að bátnum um kl. 14:20 og var flogið yfir og ítrekað kallað á bátinn í talstöð en án árangurs.

Loks svaraði skipstjóri bátsins kl. 14:37 og var honum veitt tiltal vegna lélegrar hlustvörslu á talstöðvarrás 16. Var skipstjóra gert ljóst að ef hann ætlaði að vera við veiðar á þessu svæði yrði hann að vera með útbúnað um borð sem virkar fyrir tilkynningaskyldu á þessu hafsvæði. Annars yrði hann að halda sig nær landi þar sem samband næst við hann. Lofaði skipstjóri betrun og því að útbúa sig með Irridium síma svo að hann næði í Landhelgisgæsluna.