Ísbjarnarflug um Vestfirði

  • Skrimsli_Fljotavik

Þriðjudagur 8. maí 2012

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór nýverið í eftirlitsflug um friðlandið á Hornströndum. Með í för var lögreglumaður frá Ísafirði og sérfræðingur frá Umhverfisstofnun en  tilgangur leiðangursins var m.a. að kanna hvort ummerki væru um ísbirni á þessum slóðum. Var svo ekki en hinsvegar sáust vegsummerki um að vélsleðar hefðu verið þar á ferð. Bæði sáust för eftir sleða á snjó en einnig þar sem enginn snjór er lengur. Umferð vélsleða eða annarra vélknúinna farartækja í friðlandinu er með öllu óheimil.

Einnig sást í Fljótavík stórt hvalhræ langt uppí Fljótavatni og vakti það undrun hve langt hræið væri komið upp í vatnið. Eftir nánari athugun er talið að um sé að ræða hval sem rak á fjörur í Fljóti  sl. haust og hefur færst inní vatnið í vetur. Þetta er Hnúfubakur 8 til 10 metra langur. Talið er víst að ef ísbjörn væri á svæðinu þá hefði hann líklega verið í námunda við hvalhræðið. Er nú í athugun hver verða næstu skref í málinu og hvernig best sé að fjarlægja hræið.