TF-SIF fór í eftirlitsflug á Reykjaneshrygg

  • TFSIF_Inflight3_ArniSaeberg

Föstudagur 11. maí 2012

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF fór nýverið í eftirlits- og gæsluflug þar sem könnuð var skipaumferð á SV djúpi  og Reykjaneshrygg. Í fluginu kom í ljós að á Reykjaneshrygg voru átján togarar frá aðildarlöndum Norð-Austur Atlantshafs Fiskveiðiráðsins -  NEAFC, frá Rússlandi, Spáni og Þýskalandi. Voru þar fimmtán rússneskir togarar, flestallir þétt við mörk íslensku efnahagslögsögunnar í hálfgerðum línudansi,  tveir spænskir togarar sunnan við Rússana og eitt þýskt eftirlitsskip austan við Spánverjana.

Veiðar aðildarlanda Norð-Austur Atlantshafs Fiskveiðiráðsins -  NEAFC á Reykjaneshrygg byggjast á samkomulagi sem var gert í Reykjavík í mars 2011 um stjórnun árin 2011-2014. Samkvæmt  því eru veiðar heimilar frá 10. maí og þá aðeins á svæði  (RCA) þar sem neðri stofninn veiðist en veiðar úr efri stofni utan við svæðið eru ekki leyfðar.


Aðilar að samkomulaginu eru Ísland, Danmörk fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Evrópusambandið og Noregur en Rússar mótmæla og eru því óbundnir af stjórnuninni og setja sér einhliða kvóta upp á 29.480 tonn.

Heildarafli í samkomulaginu

2011      38000
2012      32.000
2013      26.000
2014      20.000

Kvótar 2012

Ísland 9926 tonn, Noregur 1232 tonn, Evrópusambandið  4944 tonn, Færeyjar 2154 tonn, Grænland 7120. Sem fyrr segir mótmæltu Rússar og eru þeir því óbundnir af stjórnuninni og setja sér einhliða kvóta upp á 29.480 tonn.

Sjá reglugerð 1241/2011 um veiðar úr úthafskarfastofnum 2012.