Veikur skipverji sóttur á Reykjaneshrygg

  • LHG_utkall03052012-(9)

Laugardagur 9. júní 2012

Landhelgisgæslunni barst um kl. 09:00 í morgun aðstoðarbeiðni frá rússneska togaranum Aleksey Anichkin sem staddur er á Reykjaneshrygg, um 228 sjómílur frá Reykjanestá. Kallað var á aðstoð túlks sem flutti boð milli þyrlulæknis og skipstjóra togarans. Að mati þyrlulæknis var talið nauðsynlegt að sækja skipverjann og fór þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF frá Reykjavík um kl. 13:00. Þar sem flogið var út fyrir 150 sjómílur var B þyrluvakt í viðbragðsstöðu á flugvelli auk þess sem flugvél Mýflugs var tilbúin til leitar og björgunar, þar sem TF-SIF er farin til tímabundinna verkefna erlendis.

Komið var að skipinu kl.14:13, um 205 sjml. frá Reykjavíkurflugvelli. Seig sigmaður niður og undirbjó manninn fyrir flutning á börum og var hann síðan hífður um borð í þyrluna. Flogið var beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var kl. 17:02.