Sameiginlegt eftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu gengur vel

  • OKHullbatur6

Fimmtudagur 14. júní 2012

Landhelgisgæslan og Fiskistofa hafa frá því í vor unnið saman að eftirliti með veiðum skipa á Breiðafirði með harðbotna slöngubátnum Flóka sem Landhelgisgæslan hefur í prófunum fyrir íslenska skipaframleiðandann OK Hull. Sjá frétt. 

Smábátum sem stunda veiðar á Breiðafirði hefur fjölgað mikið með tilkomu strandveiða og mun meiri sókn er á grásleppuveiðar. Á undanförnum dögum hafa hundruðir báta verið á sjó innan íslenska hafsvæðisins og var met sett á miðvikudag þegar samtals 1180 skip og bátar voru í fjareftirlitskerfum. Því vilja eftirlitsaðilar fylgjast með að allt fari eftir settum reglum. Eftirlitinu er þannig háttað að eftirlitsmenn Fiskistofu fara um borð í bátana, fara yfir veiðarfæri, afla, lögskráningu, samsetningu afla og afladagbækur en hjá grásleppubátum er einnig kannaður netafjöldi, sem má vera 100 net á hvern lögskráðan skipverja um borð.  Landhelgisgæslan hefur umsjón með bátnum og leggur til mennskap og búnað vegna hans.

Eftirlit á Breiðafirði - júní 2012

Hefur báturinn reynst sérstaklega vel við eftirlit á grunnslóð og á síðasta degi strandveiða A svæðis var farið um borð í 11 strandveiðibáta  og voru flestir með sín mál í lagi. Allir voru með ís um borð en nokkar athugasemdir voru gerðar vegna afladagbóka. Hafa bátarnir á svæðinu landað afla frá 200-700 kg. og náðu flestir að klára það magn sem þeir máttu vera með.

Fleiri myndir frá eftirlitinu má sjá í myndasafni.