Landhelgisgæslan fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar

  • LHG_Frontex_SamvinnaAegirSif

Þriðjudagur 19. júní 2012

Í gær kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar sem varðar verkefni Landhelgisgæslunnar erlendis.  Landhelgisgæslan fagnar útkomu skýrslunnar sem er góð og gagnleg.  Í henni kemur meðal annars fram að verkefnum Landhelgisgæslunnar erlendis hafi fylgt faglegur og fjárhagslegur ávinningur fyrir Landhelgisgæsluna.

Verkefnin gerðu henni kleift að endurráða þyrluflugmenn sem sagt var upp á árinu 2009, ráða nýja starfsmenn og halda þeim starfsmönnum sem fyrir voru í starfi. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fengu tækifæri til að vinna við ný og krefjandi verkefni sem reyndu á hæfni og útsjónarsemi þeirra. Fengu þeir um leið mikla þjálfun og reynslu í að takast á við margvísleg verkefni.

IMGP6108
Varðskipið Ægir kemur flóttamönnum til bjargar í Miðjarðarhafi

Þá kemur fram í skýrslunni að Landhelgisgæslan hafi haft samráð við innanríkisráðuneytið þegar hún hefur tekið að sér verkefni erlendis og að þessi tekjuöflunarleið hafi notið velvilja stjórnvalda og Alþingis.  Í skýrslunni koma fram gagnlegar ábendingar en Ríkisendurskoðun telur að kveða þurfi skýrar að orði um það í lögum en nú er að Landhelgisgæslu Íslands sé heimilt að taka að sér verkefni fyrir erlenda aðila og að móta þurfi skýrari stefnu um hvernig bregðast skuli við ýmsum breytingum á starfsumhverfi Landhelgisgæslunnar sem vænta megi á næstu árum og áratugum, s.s. vegna aukinnar skipaumferðar við landið.  Fram kemur í skýrslunni að nú þegar hefur verið hafist handa við þá vinnu milli Landhelgisgæslunnar og innanríkisráðuneytis.

Sjá skýrsluna í heild sinni

31072011_LHG_Aegir_bjorgun-(10)
Hlúð að flóttamönnum sem skildir voru eftir í gilskorningi á Krít og áhöfn v/s ÆGIR bjargaði

12112011_TFSIFBaturmynd2
Bátur með flóttamönnum sem flugvélinn TF-SIF fann. Sent var björgunarskip sem flutti fólkið til lands.