Fundu torkennilegan hlut í fjöru

  • TunnaKrigsmarine

Þriðjudagur 3. júlí 2012

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar barst nýverið tilkynning um torkennilegan hlut í fjöru skammt austan við Þorlákshöfn. Var hann merktur „Kriegsmarine“ en undir því nafni gekk sjóher Þjóðverja á árunum 1935 – 1945. Miðað við lag hlutarins og merkingar var ekki hægt að útiloka að um djúpsprengju væri að ræða, en slíkar sprengjur eru afar hættulegar og bera u.þ.b. 130 kg af sprengiefni. Alls ekki má hreyfa við þeim, finnist þær á víðavangi.

Eftir að hafa skoðað hlutinn á vettvangi varð hins vegar ljóst að um olíutunnu væri að ræða. Reyndist hún tóm og skaðlaus með öllu.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af djúpsprengju frá Museum Batterie Todt, Audinghen í Frakklandi. Á næstu mynd má síðan sjá merktar olíutunnur frá sama tímabili en þær tunnur eru kyrfilega merktar með orðinu „Kraftstoff“. Því er ljóst að ekki munar miklu í útliti á þessum tveimur hlutum, þó annar sé skaðlaus en hinn stórhættulegur!

Kriegsmarine
Oil
Myndir frá Museum Batterie Todt/Paratrooperbe

Landhelgisgæslan hvetur almenning til að umgangast torkennilega hluti á víðavangi með fyllstu varúð. Vakni grunur um að um sprengifiman hlut sé að ræða má alls ekki snerta hlutinn eða hreyfa hann úr stað. Þá er mælst til þess staðsetning hlutarins sé merkt, ljósmynd tekin ef mögulegt er, og strax sé haft samband við Lögreglu í síma 1-1-2 og/eða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.