Óskeftir þyrlu LHG vegna sinuelds á Snæfellsnesi

  • 16062012_LHG_slokkvistorf

Mánudagur 9. júlí 2012

Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar óskaði um kl. 19:30 eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við að ráða niðurlögum sinuelds við Rauðkollsstaði á Snæfellsnesi. TF-LIF er eina þyrla Landhelgisgæslunnar sem búin er til slökkvistarfa og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 21:00 eftir að hafa farið í tvö útköll vegna umferðarslysa. Var þyrlan undirbúin fyrir slökkvistörfin og var farið í loftið kl. 21:30. Lent var við Rauðkoll kl. 21:59 og slökkvifatan sett undir þyrluna. Fór þyrlan samtals 22 ferðir og tók um 1200 til 1400 lítra í hverri ferð. Vel gekk að berjast við eldinn en þyrluáhöfn þurfti frá að hverfa kl. 00:30 vegna eldsneytisskorts. Lítill eldur var þá eftir og taldi sökkviliðið að þeir myndu ná að slökkva í glæðunum fljótlega.

Slökkvibúnaður þyrlunnar felst í slökkvifötu (bambi bucket) sem hengd er neðan í þyrluna, henni dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Fatan er síðan tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og  vatnið gusast út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2100 lítrar en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1200 lítrum upp í fyrrnefnda 2100 lítra.

Ljósmynd/Andrés Birkir Sighvatsson