Annríki hjá stjórnstöðinni - slösuð ferðakona sótt með þyrlu - bátur í vandræðum

  • GNA3_BaldurSveins

Miðvikudagur 11. júlí 2012

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 20:21 í kvöld beiðni frá 1-1-2 um aðstoð þyrlu eftir að ferðakona slasaðist skammt frá Landmannalaugum, milli Bláhnjúka og Brennisteinsöldu. Björgunarsveitamenn voru komnir á staðinn en þar sem ekki var talið raunhæft að bera hina slösuðu niður var óskað eftir þyrlunni. Fór hún í loftið kl. 20:47 og flaug beint á staðinn þar sem lent var kl. 21:28  í Grænagili,  hjá björgunarsveitarmönnum sem höfðu búið um konuna. Var farið að nýju í loftið 21:38 og flogið beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var kl. 22:18.

Skömmu áður en óskað var eftir þyrlunni höfðu varðstjórar verið í sambandi við bát norður af Siglufirði sem lenti í vandræðum þegar kviknaði í vélarrúmi bátsins.  Heyrðist af óhappinu á rás 9  kl. 19:53 en skipverja bátsins tókst sjálfum að slökkva eldinn. Nærstaddur bátur fór samstundist til aðstoðar og dró hann til hafnar. Óskaði Landhelgisgæslan eftir aðstoð Sigurvins, björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Siglufirði sem fór á móti bátunum og fylgdi þeim til hafnar en þangað var komið kl. 21:18.