Landhelgisgæslan hóf leit að bát sem ekki hlustaði á fjarskipti

  • TF-LIF_8434_1200

Föstudagur 5. október 2012

Þyrlur Landhelgisgæslunnar og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Skagströnd voru kölluð út kl. 12:27 vegna báts sem hvarf úr eftirlitskerfum í morgun þegar hann var um 35 sjómílur NA af Horni.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir varðstjóra Landhelgisgæslunnar  náðist ekki í bátinn eða aðra báta á sama svæði. Nauðsynlegt var að kalla út tvær þyrlur þar sem báturinn var staðsettur meira en 25 sjómílur frá landi.

Loks náðist samband við nærstaddan bát klukkan 12:50 eða þegar þyrla Landhelgisgæslunnar var við það að fara í loftið. Sagði hann bátinn sem leitað var að vera á svipuðum slóðum og allt í lagi um borð. Er það afar slæmt þegar bátar sinna ekki hlustvörslu sem nauðsynleg er öllum sjófarendum enda getur það orðið til þess að farið verður í ónauðsynlegar og umfangsmiklar leitaraðgerðir.