Varðskipið Þór æfir viðbrögð við mengun með samstarfsaðilum

  • ÞOR Arni Saeberg

Þriðjudagur 16. október 2012

Í dag fór fram mengunarvarnaæfing á ytri höfn Reykjavíkur með þátttöku varðskipsins Þórs, Umhverfisstofnunar, Faxaflóahafna, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Olíudreifingar. Markmið æfingarinnar var að þjálfa notkun olíuhreinsunarbúnaðar og olíuvarnargirðingar varðskipsins Þórs og kynna notkunina fyrir samstarfsaðilum Landhelgisgæslunnar.

MengunaraefingOKT2012-644
Olíuskiljan dælir upp innan olíuvarnargirðingarinnar

Hreinsuð var upp ímynduð olíumengun í hafinu og aðstoðaði hafnsögubátur Reykjavíkurhafnar við að leggja út olíuvarnargirðingu sem lokar af flæði „olíunnar“. Tók hann síðan við línu girðingarinnar og sigldi með hana í boga til að loka af hið mengaða svæði. Var þvínæst lögð út olíuskilja sem dælir 100 tonnum af olíu á klst. í tanka varðskipsins Þórs. Eru tankarnir upphitaðir og geta tekið 675 rúmmetra af olíu.  Einnig var könnuð virkni mengunarhreinsunarbúnaðar Olíudreifingar um borð í varðskipinu.

Að sögn Páls Geirdal skipherra gekk æfingin ágætlega og var með henni stigið mikilvægt skref í að auka samvinnu Landhelgisgæslunnar, Olíudreifingar, Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurhafnar. Afar mikilvægt er fyrir viðbragðsaðila á sviði mengunar í sjó að stilla saman strengi sína svo þegar kemur að raunverulegu útkalli verði viðbrögð eins og best verður á kosið.

Með olíuhreinsibúnaði og olíuvarnargirðingu varðskipsins Þórs hafa orðið kaflaskil á sviði mengunarviðbragða á rúmsjó, slíkur búnaður hefur ekki áður verið til staðar hér á landi en sænsku og norsku strandgæslunar hafa notað hann með góðum árangri.

Myndir úr mengunaræfingu áhöfn v/s Þór.
Mynd af Þór - Árni Sæberg.

MengunstoravelOKT2012-360
Olíuskiljan klár fyrir notkun

MengunstoravelOKT2012-389

MengunstoravelOKT2012-319
Olíuskiljan sett út

MengunstoravelOKT2012-411