Áhöfn samhæfingarstöðvar heimsótti varðskipið Þór

  • Þór á æfingu með Norsku varðskipi

Fimmtudagur 8. nóvember 2012

Ýmis viðbragðsaðilar hafa á síðastliðnum mánuðum komið um borð og kynnt sér getu og búnað varðskipsins Þórs. Hér má sjá myndir sem Sigurður Viðar Ottesen, aðstoðarvarðstjóri hjá 1-1-2 tók nýverið í heimsókn Samhæfingarstöðvar almannavarna.  Í Samhæfingarstöð almannavarna starfar sérhæft og vel þjálfað fólk úr röðum viðbragðsaðila og sjálfboðaliðasamtaka, m.a. frá almannvarnadeild, fjarskiptamiðstöð, umferðadeild og sérsveit ríkislögreglustjóra, ISAVIA, Landhelgisgæslu Íslands, Landspítalanum, Neyðarlínunni, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Rauða krossinum,  Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Vegagerðinni, einnig eru kallaðir eru til sérfræðingar þegar nauðsyn krefur.

SST_heims-(3)
Sigurður Steinar segir frá stjórntækjum í brúnni

Voru gestirnir afar ánægðir með góðar viðtökur og kynningu Sigurðar Steinar Ketilssonar, skipherra. Hófst heimsóknin í brúnni og var síðan gengið um helstu vinnusvæði og vistarverur skipsins. Mjög mikilvægt er fyrir þá aðila sem sinna viðbragðsmálum á Íslandi að þekkja vel til getu og búnaðar varðskipsins. Koma varðskipsins Þórs markaði ákveðin þáttaskil í möguleikum Íslendinga við björgun, aðstoð og eftirlit við Ísland og innan hins víðfeðma hafsvæðis sem landið ber ábyrgð á samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og alþjóðasiglingamálastofnunarinnar  (IMO). Má þar nefna eftirlitsbúnað sem sameinast í stjórnstöð í miðri brúnni sem getur verið færanleg stjórnstöð í neyðaraðgerðum og tengir björgunaraðila við samhæfingarstöð í Skógarhlíð þó svo að allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri t.d. vegna náttúruhamfara.  Hægt er að taka stórtækan björgunarbúnað um borð sem og fjölda manns sem getur skipt sköpum við björgunaraðgerðir. Varðskipið er einnig sérstaklega styrkt fyrir siglingu í ís, um borð er þyrlueldsneytis búnaður (HIFR) og er hægt að gefa þyrlum á flugi eldsneyti. Skipið er búið öflugum FiFi-1 slökkvibúnaði  og hægt er að hylja skipið vatnsúða við slökkvistörf ef á þarf að halda. Einnig er um borð úthafsmengunarhreinsibúnaður sem ekki hefur áður ver til hér við land.

Mynd af Þór - Árni Sæberg/LHG
Aðrar myndir Sigurður Viðar Ottesen/112

Nánar um varðskipið Þór.
Nánar um Samhæfingarstöð almannavarna.

SST_heims-(2)

SST_heims-(5)
Ýmis tæknibúnaður í brúnni

SST_heims-(4)
Sjúkraklefi

SST_heims-(7)
Fundarherbergi

SST_heims-(1)
Matsalur varðskipsins sem rúmar um 40 gesti í einu